Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði við HR og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, skrifaði pistil sem fjallar um krabbamein og kynlíf karla en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Ásgeir að krabbamein hafi áhrif á kynlíf karla á mismunandi hátt. „Þeir sem greinast ungir segja gjarna að kynlífið hafi algerlega fallið í skuggann fyrir sjálfum sjúkdóminum jafnvel þótt kyngetan hafi enn þá verið fyrir hendi,“ segir Ásgeir í upphafi pistilsins.
„Aðeins þrír af tíu hafa samfarir að meðaltali einu sinni í mánuði“ Ásgeir bendir á að krabbamein verði algengari eftir því sem aldurinn verður hærri. „Algengasta krabbamein karla á upptök sín í blöðruhálskirtlinum. Meðalaldur þeirra sem greinast er um sjötugt. Vandamál tengd kynlífi eru ein algengasta aukaverkun meðferðar við þessu meini. Sé meinið staðbundið við greiningu eru miklar líkur á að það sé hægt að lækna það eða lifa með því fram á háan aldur,“ segir hann og fer svo yfir tölfræði varðandi karlmenn, krabbamein og kynlíf.
„Þriðjungur karla milli sjötugs og áttræðs telur kynlíf mikilvægt fyrir lífsgæðin en jafn stór hópur segir kynlíf ekki skipta neinu máli. Einn af fimm segist ekki myndu velja að gangast undir meðferð gegn staðbundnu krabbameini í blöðruhálsi ef vitað væri að það hefði líklega áhrif á kynlífið. Hins vegar segja tvöfalt fleiri að þeir myndu alltaf velja meðferð þrátt fyrir aukaverkanir,“ segir Ásgeir.
Hann heldur áfram að tala um tölfræðina og segir að 8 af hverjum 10 karlmönnum á aldrinum 60-69 ára fái fullnægingu að minnsta kosti einu sinni í mánuði. „Kynlífsathafnir dragast þó saman þegar aldurinn færist yfir og eru sambærilegar tölur tæplega annar hver karl á aldrinum 70-80 ára. Aðeins þrír af tíu hafa samfarir að meðaltali einu sinni í mánuði eftir sjötugt.“
„Fullnægingin verður því þurr, en það dregur verulega úr nautninni“ Menn geta látið fjarlægja blöðruhálskirtilinn en Ásgeir segir að meirihluti þeirra sem gera það lendi í risvandamálum. „Þegar ristruflanir eru það miklar að ekki er lengur hægt að hafa samfarir án hjálpartækja hefur það mikil áhrif á lífsgæði þeirra sem í því lenda. Margvísleg bjargráð eru þó til staðar eins og lyf og pumpur, en einnig er hægt að framkvæma aðgerðir þar sem prótesur af ýmsu tagi eru settar inn í tippið. Best er að ráðfæra sig við þvagfæraskurðlækni varðandi þessi mál,“ segir hann í pistlinum. Að lokum talar Ásgeir um fullnæginguna. „Hjá körlum sem hafa farið í aðgerð þar sem blöðruhálskirtillinn er fjarlægður er enginn sæðisvökvi lengur til staðar, því framleiðsla sæðisvökva er eina hlutverk blöðruhálskirtilsins. Fullnægingin verður því þurr, en það dregur verulega úr nautninni. Þurr fullnæging hefur svipuð neikvæð áhrif á lífsgæði karla og þverrandi limstífni,“ segir hann. „Kynlíf skiptir máli fyrir vissa eldri karla, en alls ekki alla. Það er því mikilvægt að læknirinn ræði þessi mál vandlega við hvern og einn áður en meðferð er ákveðin.“
https://www.dv.is/frettir/2021/03/13/sumir-theirra-segja-ad-kynlifid-hafi-aldrei-verid-betra-en-eftir-tha-reynslu/
Kommentare